Því miður, er á fundi

Pistlar

Sverrir H. Geirmundsson's picture

Íslenskt atvinnulíf hefur um árabil liðið fyrir lága framleiðni vinnuafls, ekki síst í þjónustugeiranum. Lítil framleiðni þýðir í grunninn að Íslendingar afkasti tiltölulega litlu í vinnunni í samanburði við aðrar þjóðir. Skýringin á þessu er ekki einhlít og getur t.a.m. átt rætur í fyrirtækjamenningu og ýmsum siðum eða öllu heldur ósiðum í samfélaginu.

Hér áður fyrr voru stimpilklukkur í flestum fyrirtækjum og þá komst starfsfólk ekki upp með annað en að mæta á réttum tíma til vinnu burt séð frá afköstunum. Í lok dags var oft talað um að ná sér í stubb sem fólst í því að drekka einn auka kaffibolla þar til klukkan var rétt rúmlega kortér yfir fimm. Þá náðist hálftími í yfirvinnu.

Aðrir bættu um betur og mættu alltaf á laugardagsmorgnum og unnu til hádegis. Sögur eru um að einhverjir hafi nýtt þennan tíma til að vinna í skattframtalinu eða öðrum prívat málum á meðan safnað var fyrir sumarfríinu. Yfirmenn voru oft mjög hrifnir af þessum starfsmönnum, töldu þá vera klára dugnaðarforka þótt þeir hefðu ekki hugmynd um hvaða verkefni viðkomandi var að vinna í.

Fræg er sagan um auka jakkann sem útsjónarsamir starfsmenn höfðu tiltækan á vinnustaðnum. Þegar þurfti að útréttast var jakkinn gjarnan settur á stólbakið svo það liti þannig út að viðkomandi hefði skroppið í stutta kaffipásu meðan prívat erindunum var sinnt um bæinn.

Þegar þjónustuhagkerfið tók að vaxa urðu fastlaunasamningar algengari. Þessir samningar áttu að tryggja að starfsfólk væri að sinna skilgreindum verkefnum fyrir föst laun. Í kjölfarið tók stimpilklukkunum að fækka á sama tíma og viðvera starfsfólks á golfvöllum landsins jókst til allra muna.

Svo fóru vinnuveitendur að greiða fyrir farsíma handa starfsmönnum til að auka afköstin. Þá dugði ekki lengur að setja jakkann á stólbakið. Í kjölfarið þróaðist viðkvæðið „því miður, er á fundi, sendu póst”. Þeir sem þurfa að glíma við skiptiborð íslenskra fyrirtækja þekkja viðkvæðið vel; „Nei, Jón og Gunna eru á fundi í allan dag”. Það virðist svo sannarlega ekki vera skortur á meintum fundasölum í íslensku atvinnulífi.

Framleiðni og lífskjör fylgjast að. Af þeim sökum er mikilvægt að ryðja úr vegi ýmsum menningarlegum hindrunum sem koma í veg fyrir að framleiði vinnuafls aukist hér á landi.

Ritstjórapistill, Vísbending 21. tbl. 2017

Athugið að skoðanir sem hér eru settar fram eru á ábyrgð höfunda og þurfa ekki að endurspegla skoðanir Útgáfufélagsins Heims.